Þvottakústar rispa og skemma lakkið

Mjög mikilvægt er að hugsa vel um bifreiðar þegar kemur að bílaþvotti. Það skilar sér í endursölu að bílarnir líti vel út og lakkið sé óskemmt auk þess sem það er auðvitað miklu skemmtilegra að aka um á hreinum bíl. Með reglubundnum þvotti og góðri umhirðu endist bíllinn mun lengur og verður síður ryði að bráð. Þvottakústar á bílalplönum rispa gjarnan lakkið á bílunum með hárfínum rispum sem á endanum gerir lakkið matt.

Fjölmörg dæmi eru um nýlega bíla sem eru farnir að láta verulega á sjá því lakkið er orðið afar matt og orsökin er í langflestum tilfellum tvíþætt. Annars vegar þvottakústar bílaplananna og hins vegar tjara sem aflitar lakkið og eyðuleggur herslu þess. Bílakústar rispa og matta öll bílalökk. Ef bíllinn eða þvottakústurinn er óhreinn virkar kústurinn eins og sandpappír á lakkið. Tjaran og eldfjallaaskan sest á bílanna og gerir það að verkum að enn mikilvægara er að þvo bílanna á réttan hátt til að rispa ekki lakkið.

Malbikið hér á landi er yfirleitt samsett úr möluðu grágrýti, 10 til 15 mm kornastærð, og tjöru ásamt öðrum aukaefnum sem er ætlað að bæta styrk og viðloðun. Íslenskt grjót er mjög mjúkt í samanburði við erlent grjót sem veldur því að nagladekkin eiga nokkuð auðvelt með að rífa það upp í svifryk og tjöru sem hleðst á bílana okkar. Tjaran fer mjög illa með lökk á bílum. Hún bæði aflitar lakkið með tímanum og dregur úr styrkleika þess. Salt pækillinn á götum úti er svo ekki til að hjálpa til.