Skilmálar Löðurs.
Rekstraraðili Löðurs er Orkan IS ehf

 

1.     Almenn ákvæði

Orkan IS ehf., kt. 680319-0730, telst þjónustuseljandi samkvæmt skilmálum þessum en félagið rekur meðal annars bílaþvottastöðvar undir vörumerkinu Löður.  Gilda skilmálar þessir um þá nánar skilgreindu þjónustu sem seld er undir vörumerkinu Löður. Þegar vísað er til Löðurs, þjónustuseljanda eða seljanda í skilmálum þessum, er um að ræða Orkuna IS ehf. sem er sá lögaðili sem rekur bílaþvottastöðvarnar. Lögheimili Orkunnar IS ehf. er að Fellsmúla 28, 108 Reykjavík.

Kaup neytenda á þjónustu samkvæmt skilmálum þessum teljast þjónustukaup og er um þau fjallað í lögum um þjónustukaup nr. 42/2000. Um kaup rekstraraðila á þjónustu samkvæmt skilmálum þessum gilda ólögfestar reglur kauparéttar og eftir atvikum ákvæði laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup.

Notandi telst sá sem kaupir (greiðir fyrir) þá þjónustu af þjónustuseljanda sem skilmálar þessir taka til. Sé notandi neytandi verður hann að vera orðinn 18 ára gamall og hafa gilt ökuskírteini til að versla þjónustuna. Með kaupum á þjónustu í nafni rekstraraðila lýsir sá er kaupir þjónustuna fyrir hönd rekstraraðilans því yfir að hann hafi prókúruumboð fyrir rekstraraðila og/eða heimild til firmaritunar.

Skilmálar þessir gilda um öll kaup notanda á þjónustu Löðurs, s.s. sjálfsafgreiðsluviðskipti við allar þjónustustöðvar Löðurs, þ.m.t. bílaþvottastöðvar og  sjálfsafgreiðslubása. Þá gilda skilmálarnir einnig um Löður í áskrift, þjónustuna keyrt og kvitt sem og þjónustu Löður appsins. Skilmálar þessir gilda jafnframt um þá þjónustu Löðurs sem keypt er með Parka appinu.

Teljast skilmálarnir staðfestir með kaupum á framangreindri þjónustu og teljast þeir grunnurinn að viðskiptunum. Skilmálar þessir eru einungis útgefnir á íslensku.

Með því að samþykkja skilmálana lýsir notandi því yfir að hann hafi lesið, skilið og samþykkt þá  í heild sinni.

 

2.     Notkunarskilmálar

 

2.1.          Um notkun og ábyrgð á þjónustunni

Í skilmálum þessum er vísað til „þjónustunnar“ óháð því  um hvaða þjónustu Löðurs ræðir eða með hvaða hætti er greitt fyrir hana.

Löðri er heimilt að bæta við og eftir atvikum fækka þeim stöðvum sem tilgreindar eru á heimasíðu fyrirtækisins án þess að slíkt hafi áhrif á gildi eða forsendur gildandi áskriftarsamninga eða annarra samninga, s.s. en ekki eingöngu samninga um Keyrt og kvitt og Löður í áskrift.

Notandi verður að vera rétthafi þess símanúmers sem hann skráir í þjónustuna.

Öll þjónusta við notendur er í þjónustuveri Löðurs í síma 568-0000. Opnunartími þjónustuversins er á milli kl. 8.15 og 16.00 mánudaga til fimmtudaga en á milli kl. 8.15 og 15.15 á föstudögum. Lokað er í þjónustuverinu um helgar. Tölvupóstfang Löðurs er lodur@lodur.is.

Aðeins er tekið við greiðslukortum í þjónustunni. Ekki er tekið við greiðslum fyrir þjónustuna með öðrum greiðslumátum, s.s. reiðufé.  

Notandi skuldbindur sig til að hlíta þeim kjörum og skilmálum sem í gildi eru hverju sinni og finna má nánari upplýsingar um í gjaldskrá á vefnum: www.lodur.is.

Þjónustuseljandi áskilur sér rétt til þess að breyta kjörum og skilmálum, s.s. gjaldskrá sinni eða skilmálum þessum, án sérstakra tilkynninga þar um.

Notandi heimilar gjaldtöku af greiðslukorti sínu sem hann gefur upp vegna greiðslu fyrir þjónustuna sem honum er veitt samkvæmt uppgefinni gjaldskrá á hverjum tíma. Takist ekki að skuldfæra greiðslukort áskilur þjónustuseljandi sér rétt til að innheimta greiðsluna eftir öðrum innheimtuleiðum. Notandi þarf að gefa upp nafn, kennitölu, heimilisfang, farsímanúmer, ökutækjanúmer, greiðslukortanúmer og aðrar nauðsynlegar upplýsingar til að fá aðgang að þjónustunni. Notandi ber ávallt alla ábyrgð á tjóni vegna rangrar notkunar á þjónustunni, s.s. vegna vals á rangri þjónustu sem er afleiðing af röngum innslætti eða er til komin af öðrum orsökum.

Löður ber enga ábyrgð á tjóni sem verður vegna rangrar notkunar á þjónustunni hverju sinni. Ber notandi alla slíka ábyrgð sjálfur. Notandi skal lesa allar leiðbeiningar og fara nákvæmlega eftir þeim til þess að forðast tjón á ökutækjum og öðrum eignum og munum. Löður tekur enga ábyrgð á tjónum sem verða, fari notandi ekki nákvæmlega eftir þeim. Sé notandi í vafa skal viðkomandi hafa samband við Löður og fá nánari leiðbeiningar áður en að þjónusta er nýtt. Sem dæmi ber notandi ábyrgð á því að:

1)     Undirbúa ökutæki með réttum hætti áður en þjónusta er nýtt á stöðvum Löðurs. Skal notandi fella inn hliðarspegla ökutækis, loka öllum bílrúðum og eftir atvikum topplúgum, festa loftnet og viðhafa aðra háttsemi sem fyrirbyggir allt mögulegt tjón á ökutæki á meðan þjónusta er veitt. Ef notandi ræðst ekki í fyrirbyggjandi aðgerðir, m.a. í samræmi við framangreint, til þess að koma í veg fyrir tjón telst slíkt röng notkun á þjónustunni, sem notandi ber ávallt alla ábyrgð á.

2)     Ökutæki sé ekki skemmt eða við það að skemmast, að hluta til eða að öllu leyti, áður en þjónusta er nýtt, svo sem ef það er með lausan hvers konar búnað, t.d. bretti, vindskeiðar og/eða annað sem ollið getur skemmdum á ökutækinu sjálfu, öðrum ökutækjum, búnaði Löðurs eða öðru, við þjónustuna eða í kjölfar hennar.

3)     Allir hlerar ökutækis, hurðir þess og rúður séu kyrfilega lokaðar áður en og á meðan þjónusta er veitt. 

4)     Engir lausir munir, s.s. mottur, séu utan ökutækis á meðan þjónusta er veitt í sjálfvirkum þvottastöðvum.   

5)     Notkun notanda á búnaðinum sé að öðru leyti í samræmi við leiðbeiningar Löðurs um notkun. Leiðbeiningar um notkun búnaðarins má eftir atvikum finna á heimasíðu Löðurs, í Löður appinu og/eða við bílaþvottastöðvar Löðurs.

Löður ber ekki ábyrgð á tjóni sem hlýst af vanþekkingu, misskilningi eða misnotkun notanda. Löður ber ekki ábyrgð á tjóni sem má rekja til rangra aðgerða notanda. Löður ber ekki ábyrgð á tjóni sem má rekja til utanaðkomandi atvika, t.d. bilana, vatns- og rafmagnsskorts. Löður ber ennfremur ekki ábyrgð á tjóni ef rekja má tjónið til atvika sem stafa af náttúruhamförum, styrjöldum, verkföllum, farsótta eða vegna atriða sem talin verða falla undir óviðráðanleg tilvik (force majeure). Þá ber Löður ekki ábyrgð á eðlilegu sliti ökutækis vegna notkunar þjónustunnar.

Notandi ber ábyrgð á öllu því tjóni sem hann veldur á eignum, búnaði eða öðru í eigu eða umráðum þjónustuseljanda, á meðan á þjónustu stendur, eða í aðdraganda þjónustunnar eða eftir að henni lýkur. Notandi ber og ábyrgð á öllu öðru tjóni sem hann veldur á meðan á þjónustunni stendur eða í aðdraganda þjónustunnar eða eftir að henni lýkur í samræmi við reglur skaðabótaréttar þar um, s.s. ef hann veldur tjóni á ökutækjum annarra viðskiptavina Löðurs eða eignum eða munum í nágrenni við þá stöð Löðurs þar sem þjónusta fer fram.

Ábyrgð notanda tekur einnig til þess tjóns sem farþegar hans valda á meðan á þjónustunni stendur, svo og ef annar aðili en hann sjálfur fer með stjórn ökutækis er tjón verður.

Ábyrgð notanda gildir hvort sem notandi er sjálfur viðstaddur er tjón verður eður ei, enda hafi hann sjálfur greitt fyrir þjónustuna, s.s. ef hann hefur greitt í gegnum Löður í áskrift, með Löður appinu, eða með Parka appinu.  

Orkan áskilur sér rétt til að krefja notanda um skaðabætur vegna alls þess tjóns sem notandi veldur í tengslum við þjónustuna, s.s. í samræmi við framangreint. Þá áskilur Orkan sér rétt til þess að krefja notanda um skaðabætur vegna hvers konar misnotkunar á þjónustunni.

Notandi ber ábyrgð á greiðslum til þjónustuseljanda vegna umbeðinnar þjónustu frá farsíma sínum óháð því hver notar farsímann.

Óheimilt er að dreifa og/eða deila þjónustunni með einhverjum þeim hætti að hún nýtist öðrum aðilum en greiða fyrir hana.

Notandi heimilar þjónustuseljanda að senda honum tilkynningar í pósti, tölvupósti eða með SMS/MMS skilaboðum um efni sem varðar þjónustuna og/eða þjónustu sem önnur fyrirtæki innan samstæðu Orkunnar IS ehf. veita.

Þjónustuseljanda er heimilt að loka á þjónustu við notanda fyrirvaralaust, ef hann hefur ástæðu til að ætla að notandi misnoti þjónustuna eða hafi gefið upp rangar upplýsingar við skráningu. Sama á við ef notandi er kominn í vanskil eða ekki reynist unnt að gjaldfæra skráð greiðslukort fyrir umbeðinni þjónustu.

Notandi getur tilkynnt um uppsögn á þjónustunni með því að senda tölvupóst á netfangið lodur@lodur.is.  

Skilmálar þessir gilda jafnframt ef þjónusta Löðurs er keypt í gegnum þriðja aðila, s.s. með snjallforritinu Parka, sem er í eigu Parka Lausna ehf., kt. 480616–2270 („Parka“). Hafi notandi keypt þjónustu í gegnum Parka vísast til skilmála þeirra hvað þá þjónustu varðar: https://parka.app/skilmalar.

Það er á ábyrgð notanda að gefa upp íslenskt símanúmer sem hann er sannarlega skráður fyrir, sem og réttar korta- og bankaupplýsingar á sömu kennitölu. Hægt er að breyta korta- og bankaupplýsingum undir stillingar í appinu. Notandi ábyrgist að uppfæra þær upplýsingar sem um hann gilda þannig að þær séu á hverjum tíma réttar og fullnægjandi.

 

2.2.          Persónuvernd

Þjónustuseljandi meðhöndlar persónuupplýsingar í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 90/2018. Vísast hér og til persónuverndarstefnu Löðurs sem finna má á heimasíðu Löðurs: https://www.lodur.is/personuverndarstefna

 

2.3.          Upplýsingar

Þjónustuseljandi veitir upplýsingar um þjónustu eftir bestu vitund hverju sinni. Þjónustuseljandi birtir allar upplýsingar með fyrirvara um bilanir, vírusa, prent-, birtingar- og innsláttarvillur í texta, verðum og myndum.

Þjónustuseljandi áskilur sér rétt til að aflýsa í heild eða að hluta til áskrift notanda ef að þjónustan er uppseld og/eða biðtími eftir þeirri þjónustu sem hann hyggst veita er orðinn óeðlilega langur. Skal þjónustuseljandi þá senda notanda tilkynningu þess efnis eins fljótt og unnt er.

 

2.4.          Verð

Gjaldskrá þjónustuseljanda tekur breytingum meðal annars vegna samkeppni, breytinga á fjármagnskostnaði, launaþróunar og verðbreytinga birgja á aðföngum. Komi til þess að gjaldskrá þjónustuseljanda vegna áskriftar taki breytingum til hækkunar eða lækkunar þá hefur það ekki áhrif á gjaldtöku fyrir líðandi áskriftartímabil sem er 30 dagar og taka verðbreytingar því ekki gildi fyrr en við næstu endurnýjun sem er 30 dögum eftir upphaf líðandi áskriftartímabils. Breytingar á gjaldskrá taka gildi þegar í stað fyrir notendur þjónustunnar keyrt og kvitt. Gjaldskrá þjónustuseljanda er birt á vefsíðu hans: www.lodur.is.

 

2.5.          Nánari ákvæði um greiðslu

Greiðsla fyrir áskrift er ekki endurkræf undir neinum kringumstæðum og á það einnig við ef notandi getur einhverra hluta vegna ekki nýtt sér hina keyptu þjónustu. 

Greiðsla fyrir áskriftarþjónustu / keyrt og kvitt og er eingöngu hægt að inna af hendi með greiðslulausnum Parka og Löður appsins og um heimildir þeirra aðila til gjaldtöku, s.s. af greiðslukortum, vísast til skilmála viðkomandi aðila. Ekki ert hægt að greiða fyrir áskriftarþjónustu/keyrt og kvitt Löðurs með öðrum hætti en að framan greinir. Það kemur þó ekki í veg fyrir að Löður geti innheimt greiðslur fyrir áskriftarþjónustu/keyrt og kvitt ef einhverra hluta vegna tekst ekki að gjaldfæra fyrir þjónustuna í gegnum greiðslulausnir Parka og Löður appsins.

 

2.6.          Brot á skilmálum

Brjóti notandi gegn skilmálum þessum, til dæmis, en takmarkast ekki við, með því að reyna að komast hjá gjaldtöku á óheimilan hátt, eða bjóða eiganda eða umráðamanni annars ökutækis, hvort sem er gegn greiðslu eða ekki, að nýta áskriftarþjónustuna, koma gjaldskyldu yfir á óskyldan eða ógjaldfæran aðila, verða uppvís af annars konar misnotkun s.s. með því færa skráningarmerki á milli ökutækja án samþykkis Löður, skal þjónustuseljanda vera heimilt, án fyrirvara, að fella niður þjónustu og krefjast greiðslu sem þjónustuseljandi áætlar að af sanngirni bæti fyrir brot notanda. Þá kann þjónustuseljandi einnig við þessar aðstæður að tilkynna sérhverja refsiverða háttsemi til lögreglu. 

 

3.     Önnur ákvæði er varða þjónustuna Löður í áskrift

Vísað er eftir atvikum til þjónustunnar Löður í áskrift í kafla þessum sem „áskriftin“.

Hafi notandi valið áskrift þá veitir sú áskriftarleið, sem valin er, notanda aðgang og eftir atvikum þjónustu á þeim bílaþvottastöðum sem viðkomandi áskriftarþjónusta gildir á og fyrir þann fjölda bifreiða sem notandi hefur valið að greiða fyrir. Þannig býður Löður annars vegar upp á áskriftarleið sem felur í sér ótakmarkaðan þvott á þeim snertilausum stöðvum fyrirtækisins sem sérstaklega eru tilgreindar á heimasíðu fyrirtækisins www.lodur.is. Hins vegar býður Löður upp á þjónustu sem felur í sér, til viðbótar við framangreint, ótakmarkaðan þvott á þeim mönnuðu stöðvum fyrirtækisins sem einnig eru sérstaklega tilgreindar á fyrrgreindri vefsíðu Löðurs. Við kaup á báðum áskriftarleiðum stendur notanda til boða að kaupa þjónustu vegna annarrar bifreiðar í hans eigu eftir atvikum með tilteknum afslætti.   

Óheimilt er að dreifa og/eða deila áskriftinni með einhverjum þeim hætti að hún nýtist fleiri aðilum en greiða fyrir hana.

Löður í áskrift er eingöngu selt í gegnum farsímaforritin (e. apps) Parka og Löður. Gilda skilmálar Parka þar sem við á. Einnig gilda allir aðrir skilmálar Löður, þ.m.t. en ekki eingöngu persónuverndarstefna Löðurs, að því leyti sem þeir samrýmast áskriftarskilmálum þessum.

Þjónustuseljandi býður eins og að framan greinir tvær áskriftarleiðir; annars vegar ótakmarkaðan bílaþvott á tilgreindu tímabili í völdum snertilausum bílaþvottastöðvum og hins vegar ótakmarkaðan bílaþvott í völdum snertilausum og mönnuðum stöðvum.

Áskrift gildir í 30 daga í senn. Áskrift endurnýjast ávallt nema í þeim tilvikum þegar þjónustuseljandi segir henni upp fyrir endurnýjun.

Áskrift telst bindandi þegar hún er skráð á netþjón þjónustuseljanda. Þjónustuseljandi er skuldbundinn til að afgreiða þá áskrift sem notandi óskar eftir af því gefnu að hún sé í samræmi við þjónustuúrval hans og verðlagningu. Þjónustuseljandi getur bæði neitað sölu á áskrift og/eða afturkallað selda áskrift ef hann kýs svo, t.d. ef hann grunar að brögð séu í tafli og/eða hugbúnaðargalli hafi áhrif á áskriftina.

Sé notandi neytandi hefur hann rétt á að rifta áskrift samkvæmt þeim skilyrðum sem tiltekin eru í lögum um þjónustukaup. Um riftunarheimild notanda sem er rekstaraðili gilda almennar reglur kröfu- og kauparéttar.

Þjónustuseljandi sendir notanda staðfestingu þegar áskrift er skráð, þó aðeins ef að notandi hefur skráð netfang sitt og símanúmer við kaupin. Það er skilyrði fyrir veitingu þjónustu af hálfu Löður að notandi sé rétthafi þess símanúmers sem gefið er upp við kaupin.

Notanda skal kynna sér gaumgæfilega áskriftarstaðfestingu þegar hún berst og ganga úr skugga um að hún sé í samræmi við fyrirhugaða áskrift.

 

4.     Önnur ákvæði er varða þjónustuna Keyrt og kvitt

Hafi notandi valið þjónustuna keyrt og kvitt þá veitir sú þjónustuleið þjónustuseljanda möguleika á því að nýta sér þjónustu sem felur í sér að myndavélabúnaður Löður les skráningarnúmer viðkomandi bifreiðar og gjaldfærir sjálfkrafa kostnað við viðkomandi bílþvottakaup. Þjónusta af þessum toga er í boði á sömu snertilausu og mönnuðu stöðvum og áskriftarþjónusta er í boði en staðsetning þeirra þvottastöðva er tilgreind á heimasíðu fyrirtækisins www.lodur.is

 

5.     Breytingar á skilmálum, úrlausn ágreiningsefna, gildistími o.fl.

Þjónustuseljandi hefur heimild til þess að breyta skilmálum þessum án fyrirvara sem og þeim upplýsingum á heimasíðu sinni sem vísað er til í skilmálum þessum. Allar breytingar á skilmálum skulu tilkynntar með skýrum hætti fyrir notendum.

Þjónustuseljandi áskilur sér ennfremur rétt til að breyta skilmálum þessum vegna nýrra þjónustuleiða, þ.m.t. áskriftarleiða, án þess að tilkynna öllum notendum um þær breytingar enda hafa þær breytingar ekki áhrif á gildandi áskriftir/ þjónustu.                                                 

Rísi upp ágreiningur um túlkun og skýringu á skilmálum þessum skulu aðilar leitast við að ná sáttum með heiðarleika og sanngirni að leiðarljósi. Takist það ekki er notanda, ef hann er neytandi, heimilt að bera mál undir kærunefnd vöru- og þjónustukaupa. Þá er notendum, hvort sem þeir eru neytendur eða rekstraraðilar, ávalt heimilt að bera ágreining undir dómstóla. Leiti aðilar liðsinnis dómstóla skal slíkt mál í öllum tilvikum rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.   

Skilmálar þessir eru gefnir út af Orkunni IS ehf. taka gildi þann 7. apríl 2025. Skilmálar þessir gilda frá upphafi viðskipta og til þess tíma er nýir skilmálar taka gildi. Löður áskilur sér rétt til að breyta skilmálum þessum, öðrum skilmálum og stefnum vegna þjónustunnar, verðskrám, hvers konar gjöldum og/eða innihaldi þjónustu, án sérstakrar tilkynningar þar um.